144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð mögnuð ræða og að mörgu leyti afar merkileg því að hún snerist um það að sú ríkisstjórn sem nú situr og var kosin eftirminnilega til valda í kosningum 2013 legði ekki nógu mikið fé til þess að byggja það upp sem síðasta ríkisstjórn braut niður. Hér var farið í löngu máli yfir það að heilbrigðiskerfið væri að hruni komið. Við vitum það vel. Það var komið að fótum fram þegar þessi ríkisstjórn tók við vegna þess að síðasta ríkisstjórn fór nákvæmlega inn í heilbrigðiskerfið og molaði það að innan.

Svo var talað um að ekki gengi nógu hratt að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Síðasta ríkisstjórn ruddist meira að segja inn í grunnbætur ellilífeyrisþega sem engin ríkisstjórn hafði áður gert og skerti þessa tvo hópa um 16 milljarða á einu kjörtímabili. Vel gert, ekki rétt? Fyrir það þurfa þingmenn fyrrverandi stjórnarflokka að svara, þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.

Þessi ríkisstjórn er búin að bæta það nánast að fullu, segir félagsmálaráðherra mér. Þá er orðið tímabært að koma fram með þær upplýsingar svo það skiljist í eitt skipti fyrir öll. Það er búið að setja nýja 12 milljarða inn í Landspítalann, það er búið að setja mikið nýtt fé inn í heilbrigðisstofnanir úti á landsbyggðinni þannig að ég skil ekki þennan málflutning. Það er eins og það er, þessir flokkar eru enn í sárum yfir því að hafa verið kosnir í burtu og það birtist til dæmis í þessari ræðu.

Mig langar að spyrja þingmanninn um það sem hún fór yfir í upphafi ræðu sinnar, að velferðarnefnd hafi ekki fjallað um þessa þingsályktunartillögu. Sér þingmaðurinn fyrir sér að breyta öllum fagnefndum þingsins í fjárlaganefndir?