144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru merkilegar fullyrðingar. Fyrst vorum við vond og svo ætluðum við að vera góð ef við hefðum fengið kosningu aftur. Það var hins vegar bara þannig að kjósendur höfnuðu þessari svokölluðu vinstri velferðarstjórn í síðustu alþingiskosningum þannig að þetta eru staðreyndir sem þessir tveir flokkar geta ekki hlaupist frá og allir vita um. Það vantaði einungis eitt í ræðu þingmannsins og það er setningin sem var notuð allt síðasta kjörtímabil: Hér varð hrun.

Það hjálpar ekki þessum flokkum nú vegna þess að eins og ég fór yfir var ráðist í viðkvæmustu málaflokkana, þangað sótt fjármagn á meðan ríkisstjórnin stundaði það að dæla peningum í gæluverkefni. Nefni ég þar efst á blaði umsóknina að Evrópusambandinu. Ég get líka talað um tilraunir vinstri stjórnarinnar til að breyta stjórnarskránni sem var rándýrt fíaskó, endaði meira að segja með hæstaréttardómi þannig að áherslurnar voru aldrei á hreinu í grunnþjónustunni hjá fyrri ríkisstjórn eins og er hjá þeirri sem situr nú. [Kliður í þingsal.]