144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þingmaðurinn segir: Það er ekki hægt að skerða velferðarþjónustuna meira. Það segir þingmaðurinn sem jafnaðarmaður. Sem jafnaðarmaður segi ég: Nei, ég er sammála, það er ekki hægt og það verður að auka í.

Ef við lítum fram hjá sýn jafnaðarmanna og stefnu jafnaðarmanna um velferðarsamfélag er auðvitað hægt að draga úr velferðarþjónustunni, ef pólitísk sýn fólks er þannig. Það er sú pólitíska sýn sem fram kemur í þessu plaggi og sú sem bitnar á millitekjufólki og lágtekjufólki. Menn reyna að villa fólki sýn með því að kynda hagkerfið alltaf eins og þeir geta til að afla meiri skatttekna af því að tekjurnar eru svo miklar. Við vitum hvernig það endar. (Forseti hringir.) Það endar með ósköpum.