144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það megi draga þetta saman þannig að segja að almennt boðar þessi áætlun ekki gott fyrir samábyrgt velferðarkerfi í einhverjum norrænum anda. Af hverju skyldi hún gera það þegar þessir tveir flokkar fara með völdin í landinu? Kemur það einhverjum á óvart? Hver er boðskapurinn? Jú, það á að fletja út skattkerfið og draga úr tekjujöfnunargildi þess. Því er lýst yfir hérna. Það á að veikja hina stöðugu, traustu tekjustofna ríkisins. Það er verið að gera það, kannski með það í huga að lifa tímabundið á froðutekjum núna ef þensla fer í hönd. Það getur heppnast en það er samt verið að veikja hina traustu, stöðugu tekjustofna sem ekki gufa upp þegar breytingar verða á hagsveiflunni. Ef við reynum að nálgast þetta þannig, sem er oft gagnlegt í umræðum um efnahagsmál, að horfa í gegnum sveifluna og horfa á grunninn, í gegnum sveiflur upp og niður, er verið að veikja hann. Það er stefnt markvisst að því að lækka hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu um 1% á þessum áætlunartíma.

Orðalagið er satt best að segja mjög kostulegt. Á bls. 38 er sagt að það sé stefnt að hóflegum raunvexti frumgjalda ríkissjóðs um 0,4–1,6% á ári. En svo er sagt að raunvöxtur útgjaldahliðarinnar verði hægari en nemi raunvexti vergrar landsframleiðslu. Þetta á sem sagt ekki að fá fulla hlutdeild í hagvextinum næstu fjögur árin og þannig lækka menn hlutfallið.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann sem formann velferðarnefndar út frá því sem hér var sérstaklega rætt: Hvernig á þetta að ganga upp á sama tíma og aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast? Við höfum séð það eiginlega alls staðar í kringum okkur að hlutfallið hækkar (Forseti hringir.) til að takast á við það jafnvel þó að hægri stjórnir sitji við völd. Bara heilbrigðisútgjöldin ein hafa víðast hvar í OECD hækkað um 1–2% af vergri landsframleiðslu síðustu 10–15 árin.