144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef verið að reyna að glöggva mig líka betur á því hvernig þetta er hugsað áfram. Ég staldra við það hvort þetta 1% áframhaldandi aðhaldsmarkmið næstu fjögur árin, ef ég les rétt út úr þessu, t.d. á bls. 36, sé raunhæft. Munum við ná að draga áfram um 1% árlega úr útgjöldum, t.d. til ýmiss rekstrar, ofan í allt sem á undan er gengið?

Ég held að það muni taka í. Tökum bara ráðuneytin sjálf sem fengu þetta kjaftshögg, þessa hefndaraðgerð á sig (Gripið fram í.) við fjárlagaafgreiðsluna milli umræðna. Er það spennandi tilhugsun hjá þeim að eiga að bæta á sig 1% í viðbót næstu fjögur árin? Að vísu eru teknir frá 4 milljarðar í pott til að mæta einhverju óráðstöfuðu og einhverjir liðir undanskildir en ég held að þetta sé erfitt.

Auðvitað á að rýna í stóru myndina, samneysluna í heild, umsvif hins opinbera sem eru til muna lægri hér en annars staðar. (Forseti hringir.) Þetta kristallast í heilbrigðismálunum að mínu mati vegna þess að þar er beinlínis verið að segja við okkur að Ísland geti verið á einhverju allt öðru róli en önnur lönd við sambærilegar aðstæður næstu árin. Það mun ekki ganga eftir.