144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að ræða það sem kom fram þegar flutt var skýrsla Vinnumálastofnunar um horfur á vinnumarkaði. Þá horfðu menn tvö, þrjú ár fram í tímann og það merkilega var að aukningin á vinnumarkaði er eingöngu í ferðaþjónustu. 96% af þeim sem komu inn á vinnumarkaðinn í fyrra voru vegna ferðaþjónustu. Það sem var athyglisverðast í þeim tölum sem þar komu fram var að það er fjölgun á Íslendingum, þ.e. þeim sem búa á Íslandi, en það er fækkun á íslenskum ríkisborgurum. Það eru um 790 sem fækkaði, þ.e. fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu úr landi en fluttu inn, ef ég man þessar tölur rétt.

Hv. þingmaður nefndi einmitt atvinnuástandið í ræðunni og að við værum í samkeppni við Norðurlöndin. Mig langar að biðja hv. þingmann að fylgja þessu aðeins betur eftir vegna þess að ég deili áhyggjum hv. þingmanns þegar við erum að skoða það (Forseti hringir.) að við erum enn þá að missa fólk úr landi.