144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef við værum stödd á einhverjum svipuðum stað og Norðurlöndin sem við berum okkur oft saman við gætum við kannski talað um að við vildum fara inn í sama farveg og þar er varðandi gerð kjarasamninga. Við erum hins vegar ekki stödd þar og það þarf að rétta kúrsinn hjá svo mörgum stéttum. Því miður er staðan og veruleikinn þannig. Það verður að gera það. Það er ekkert skrýtið að það brjótist fram uppsöfnuð reiði og þörf fyrir leiðréttingu hjá hópum, bæði láglaunastéttum og millistéttum og ýmsum fagstéttum, stórum kvennastéttum eins og eru innan BHM og Félags hjúkrunarfræðinga að vilja láta leiðrétta kúrsinn innbyrðis vegna þess að það er svo mikill ójöfnuður í samfélaginu. Við getum alveg haldið uppi þannig samfélagi að þessar stéttir fái borgað miðað við vinnuframlag sitt og þá ábyrgð sem fylgir störfum þeirra. Við stöndum langt að baki Norðurlöndunum en þegar við verðum orðin stödd á sama stað líst mér ágætlega á hvernig hægt er að vinna þetta saman varðandi efnahagsstefnu og þróun launa og að þetta (Forseti hringir.) harmóneri saman.