144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þessari þingsályktunartillögu sem auðvitað er rammaáætlun er engin hagræn skipting. Við fáum engar almennilegar og haldbærar upplýsingar um það hvernig eigi að verja þeim heildargjöldum sem áætluð eru hér 671 milljarður á árinu 2016 og árin þar á eftir. Auðvitað er þetta ekki fjárlagafrumvarpið og það er ekki sundurliðað niður á einstaka fjárlagaliði, því að það kemur í fjárlagafrumvarpinu, en meginlínur og megináherslur er ekki hægt að lesa út úr þessari tillögu.

Því spyr ég: Er ásættanlegt að við séum að samþykkja útgjaldaramma sem við höfum ekki hugmynd um hvaða áherslu á málaflokka hefur að geyma? Er þetta ekki furðulegt vinnulag?