144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðunni að frumgjöldin af vergri landsframleiðslu fara lækkandi. Hvað þýðir það á mannamáli? Að við setjum minni fjármuni í uppbyggingu innviða samfélagsins, sama hvaða nafni við nefnum það. Það er grafalvarlegt. Við erum að fara í þveröfuga átt ef við ætlum að kalla okkur norrænt velferðarsamfélag.

Á árunum eftir hrun mátti segja að það væri gott að það fólk sem missti atvinnu hérna hefði tök á að bjarga sér með því að fara til landanna í kringum okkur, afla sér tekna og búa ekki við það að vera á Íslandi á atvinnuleysisbótum. Það má alveg leggja það þannig út, en núna viljum við vera komin það langt að við getum boðið velkomið heim allt það fólk sem fór. Svo ræður hver og einn hvað hann gerir. (Forseti hringir.) Við viljum hins vegar hafa þannig samfélag að við getum boðið það fólk sem þurfti að fara í burtu eftir hrunið velkomið heim.