144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:06]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Velkomið heim, ég tek undir það. Það sem hefur sem betur fer gerst á síðustu árum og síðustu áratugum og kannski strax í litlu kreppunni árið 1968 er að fólkið sem fer til atvinnu og náms á Norðurlöndunum kemur aftur, ekki bara með heldur skárri laun og kannski betri menntun barnanna sinna, heldur kemur það líka aftur með þá hugmynd og spurningu: Af hverju er þetta ekki svona hér?

Ekkert læra menn sem nú eru við stjórn af þessu og það var eftirtektarvert um daginn þegar hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson kvartaði beinlínis undan því að verkalýðshreyfingin vildi ekki vera með í norræna kjarasamningsmódelinu. Það átti að vera norrænt en grundvöllur norræna kjarasamningsmódelsins er einmitt norræna velferðarkerfið sem bæði forsvarsmenn atvinnurekenda og launamanna þar telja undirstöðuna undir þeim samningum (Forseti hringir.) og hlutaskiptum sem þar eru gerð.