144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við það sem hefur komið fram, að Björt framtíð heldur flokksstjórnarfund seinni partinn í dag á meðan við fundum. Það hefur að jafnaði viðgengist í þinginu að forseti hefur tekið tillit til þess þegar þannig hefur verið. Það er bagalegt þegar heill þingflokkur getur ekki verið viðstaddur umræðu og tekið þátt í henni, ég tala nú ekki um umræðu eins og þá sem hér fer fram sem varðar í raun undirstöðuna alla. Það má segja að það sé allt undir þegar við erum að tala um ríkisfjármálaáætlunina þannig að ég fer þess á leit við virðulegan forseta að hann láti þennan fund duga þar sem fundur flokksstjórnar Bjartrar framtíðar hefur staðið yfir í nærfellt tvo klukkutíma. Ég tel bara ágætt að láta þetta duga, og ekki síður vegna þess að það er sjómannadagshelgi fram undan og margir þingmenn vilja (Forseti hringir.) fara til síns heima til að taka þátt í hátíðarhöldunum með heimamönnum á sunnudaginn.