144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Eins og það gleður mig að geta tekið þátt í umræðu um ríkisfjármálin til framtíðar er það ekki að öllu leyti sanngjarnt að við leyfum okkur að halda hér langar ræður og stuttar meðan félagar okkar í Bjartri framtíð eru uppteknir á fundi sem löngu er ákveðinn og löngu boðaður. Það er svolítið misjafnlega láni skipt. Annars vegar er þessi flokkur, Björt framtíð, sem getur ekki tekið þátt í umræðunni og hins vegar er flokkur sem ég man ekki hvort er stærri eða minni samkvæmt könnunum sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn sem vill ekki taka þátt í umræðunni. Þó er því þannig varið að það er sjálfstæðismaður, meira að segja hæstv. formaður Sjálfstæðisflokksins, sem ber fram það þingmál sem hér er um að ræða en úr hans flokki er aðeins einn maður staddur í húsinu, að vísu (Forseti hringir.) einhver besti sjálfstæðismaður sem völ er á á Alþingi um þessar mundir, hinn frjálslyndi jafnaðarmaður, hv. þm. Brynjar Níelsson, en það er ekki alveg nóg og láni manna er sannarlega misskipt á þessum fundi.