144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ef tíminn leyfir er ég að fara í ræðu rétt á eftir og ég mundi vilja fá andsvör frá fjármálaráðherra, formanni efnahags- og viðskiptanefndar og formanni fjárlaganefndar vegna þess að ég er með nokkrar spurningar til þeirra. Mér finnst í þessu stefnumótunarplaggi svolítið kastað til höndunum. Menn virðast hafa verið að drífa sig það mikið að það eru málfarsvillur þarna sem og efnisvillur eins og talað er um gjaldeyrishöft þegar klárlega er verið að tala um fjármagnshöft og slíkt. Helst mundi ég vilja tala um Íbúðalánasjóð og Hagsmunasamtök heimilanna. Hagsmunasamtök heimilanna eru með mál á Íbúðalánasjóð sem verður dæmt í haust. Hvers vegna er ekki neitt fjallað um það þarna? Það tengist Íbúðalánasjóði, hvað hann getur kostað, og ég mundi vilja ræða það. Ég mundi vilja ræða afnám hafta og þá er spurningin: Eigum við ekki frekar að fresta þessari umræðu, taka eitthvert annað mál á dagskrá (Forseti hringir.) fram yfir helgi þegar við förum að sjá eitthvað á spilin varðandi það hvernig afnám hafta er og hvernig áhrif það getur haft? Ég bíð eftir að forseti kalli eftir að þessir aðilar mæti í hús.