144. löggjafarþing — 121. fundur,  7. júní 2015.

gjaldeyrismál.

785. mál
[22:06]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er flutt af efnahags- og viðskiptanefnd en það er unnið í samstarfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands, sem hefur eftirlit með lögum um gjaldeyrismál og er ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt sem varðar gjaldeyrismál. Ráðherra hefur farið þess á leit við efnahags- og viðskiptanefnd að nefndin flytji frumvarpið með það fyrir augum að það verði orðið að lögum sem fyrst og ekki síðar en fyrir opnun skrifstofu Seðlabankans á morgun.

Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um málið á fundi sem haldinn var í dag. Á fundinn komu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, seðlabankastjóri ásamt fleiri fulltrúum Seðlabankans sem kynntu efni frumvarpsins og svöruðu spurningum nefndarmanna afar skilmerkilega. Að lokinni þeirri kynningu ræddi nefndin málið og ákvað einróma að flytja frumvarpið. Ég vil þakka nefndarmönnum fyrir gott starf og samstöðu við vinnslu málsins.

Ég mun nú rekja efni frumvarpsins í stórum dráttum en frumvarpið má finna á þingskjali 1398 ásamt ítarlegri greinargerð. Frumvarpinu er ætlað að treysta forsendur aðgerða ríkisstjórnarinnar til losunar fjármagnshafta og vega á móti þeirri áhættu sem getur skapast þegar fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti tiltekinna aðila eru losuð á undan öðrum. Öðru fremur miða tillögur frumvarpsins að því að fella niður undanþágur sem fallin fjármálafyrirtæki hafa notið frá höftunum en einnig að girða fyrir ákveðin viðskipti sem grafið gætu undan markmiðum losunarferlisins. Samhliða eru lagðar til breytingar sem hafa þann tilgang að skerpa á ýmsum ákvæðum laganna að teknu tilliti til reynslu við framkvæmd haftanna og koma í veg fyrir sniðgöngu. Þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er einnig ætlað að standa vörð um stöðugleika í gengis- og peningamálum.

Í frumvarpinu eru lagðar til eftirtaldar breytingar:

Í 1. gr. er lagt til að lögaðilum sem sæta slitameðferð og lögaðilum sem hafa lokið slitameðferð í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki verði óheimilt að eiga gjaldeyrisviðskipti, þar sem krónan er hluti af viðskiptunum, við aðra aðila en viðskiptabanka og sparisjóði hér á landi. Þessari takmörkun er þó ekki ætlað að eiga við þegar umræddir aðilar nota erlendan gjaldeyri við úthlutun til kröfuhafa sem eiga kröfur í innlendum gjaldeyri í tengslum við lok slita.

Hér á eftir í þessari ræðu verður yfirleitt látið nægja að tala einvörðungu um fallin fjármálafyrirtæki í stað þess að vísa til lögaðila í slitameðferð og lögaðila sem lokið hafa slitameðferð og lögaðila sem stofnaðir hafa verið í tengslum við efndir nauðasamninga umræddra aðila eins og gert er í einstökum greinum frumvarpsins.

Í a-lið 2. gr. er lagt til að fallin fjármálafyrirtæki skuli ekki njóta sérstakrar undanþágu sem félög innan sömu samstæðu njóta í tengslum við lánaviðskipti sín á milli. Það þýðir að samstæðulánaviðskipti þessara aðila lúta almennum skilyrðum sem gilda um lánveitingar milli innlendra og erlendra aðila. Hliðstæð breyting er lögð til í 3. gr. frumvarpsins varðandi veitingu ábyrgða innan samstæðna þar sem fallið fjármálafyrirtæki er aðili að viðskiptunum.

Í b-lið 2. gr. er lagt til að skilyrði um tveggja ára lágmarkslánstíma, sem á við um lántöku innlendra aðila hjá erlendum aðilum í erlendum gjaldeyri, verði útfært nánar í þeim tilgangi að styðja við takmarkanir laga um gjaldeyrismál og fyrirframgreiðslu slíkra lána.

Í a-lið 4. gr. er lagt til að heimild innlendra aðila til þess að kaupa erlendan gjaldeyri til greiðslu samningsbundinna afborgana af láni í erlendum gjaldeyri hjá því innlenda fjármálafyrirtæki sem veitti viðkomandi lán verði háð því skilyrði að lánið sé eigi til skemmri tíma en tveggja ára eða að lán hafi verið veitt vegna greiðslu til erlends aðila vegna vöru- og þjónustuviðskipta.

Í b-lið 4. gr. eru lagðar til takmarkanir á heimildum innlendra aðila til kaupa á erlendum gjaldeyri hjá innlendum fjármálafyrirtækjum vegna afborgana af lánum og greiðslna til erlendra aðila vegna áfallinna ábyrgða. Annars vegar er lagt til að í tilviki lána og ábyrgða sem veitt eru innan samstæðna verði það skilyrði sett fyrir gjaldeyrisviðskiptunum að slík lán eða ábyrgðir standi í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti eða lán sem ábyrgð er veitt fyrir uppfylli skilyrði 3. mgr. 13. gr. g. Hins vegar er lagt til að föllnum fjármálafyrirtækjum verði ekki heimilað að eiga slík gjaldeyrisviðskipti nema hlutaðeigandi lán eða ábyrgðir hafi verið veitt í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti.

Í c-lið 4. gr. er lagt til að tilgreindar greiðslur sem ekki eru til þess fallnar að viðhalda eðlilegu samningssambandi milli lántaka og lánveitanda falli utan hugtaksins „samningsbundin afborgun“ með hliðsjón af því að fjármagnshreyfingar vegna samningsbundinna afborgana og gjaldeyrisviðskipti þeim tengd eru að meginstefnu til undanskildar takmörkunum laga um gjaldeyrismál.

Í 5. gr. er lagt til að tilgreindar fjárfestingar sem beint eða óbeint tengjast fjárfestingum í afleiðum eða kröfum á fallin fjármálafyrirtæki verði ekki meðhöndluð sem nýfjárfesting. Fjárfestar sem koma með nýtt erlent fjármagn til landsins hafa á grundvelli sérstaks ákvæðis í lögunum haft heimild til að fara aftur óhindrað með sömu fjármuni úr landi ásamt ávöxtun. Þá er í 5. gr. frumvarpsins áréttað að skilaskyldur erlendur gjaldeyrir teljist ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris.

Í 6. gr. er lagt að sérstakar undanþágur sem lögaðilar í slitameðferð hafa notið frá þeim takmörkunum sem tilgreindar eru í 13. gr. e, 1. mgr. 13. gr. f, 13. gr. g og 13. gr. h laganna falli brott. Eftir sem áður munu þessir aðilar geta sótt um undanþágur frá fjármagnshöftunum með vísan til 1. mgr. 7. gr. og 13. gr. o laga um gjaldeyrismál líkt og aðrir aðilar. Þessar takmarkanir varða fjárfestingar í framseljanlegum fjármálagerningum og peningakröfum í erlendum gjaldeyri, lánaviðskiptum milli innlendra og erlendra aðila og ábyrgðir sem veittar eru vegna greiðslna til erlendra aðila. Þá er lagt til að umræddir aðilar verði áfram undanþegnir skilaskyldu á erlendum gjaldeyri í öðrum tilvikum en þeim sem varða lántöku í erlendum gjaldmiðlum.

Að lokum er í 7. gr. lagt til að lögin taki þegar gildi. Vegna eðlis ákvæða frumvarpsins er talið nauðsynlegt að lögin bindi alla þegar við birtingu þeirra. Og þar sem nefndin flytur málið er lagt til að málið gangi ekki til nefndar á milli 1. og 2. umr.