144. löggjafarþing — 121. fundur,  7. júní 2015.

gjaldeyrismál.

785. mál
[22:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem fram kom í ræðu minni. Ég taldi það og tel það óumflýjanlegt að gera öðrum hv. þingmönnum hér í salnum grein fyrir því þegar um er að ræða röksemdir fyrir því að mál sé flutt með svo óvenjulegum hætti sem raun ber vitni. Nú er auðvitað ekki venjan almennt á þingfundum að vitna í ummæli eða afstöðu gesta á lokuðum nefndarfundum í þinginu, en þegar um er að ræða forsendur máls af þessu tagi þá fyndist mér ekki rétt að þegja yfir því að já, við höfum fyrir því orð seðlabankastjóra að þessi leki í DV á föstudagsmorguninn hafi skapað óróleika, aukið þrýstinginn og geri það að verkum að menn vilji ekki bíða lengur með það að drífa þessa löggjöf í gegn og samanber gildistökuákvæðið þá öðlast þau þegar gildi og bíða ekki venjulegrar birtingar þannig að vel fyrir klukkan átta í fyrramálið verða þau væntanlega orðin að lögum til þess að girða algerlega fyrir það að í smíði séu einhverjir þeir gjörningar, einhver þau „instrúment“ sem menn gætu hugsanlega notað til þess að koma einhverjum fjármunum í burtu á næstu klukkutímum og sólarhringum.