144. löggjafarþing — 121. fundur,  7. júní 2015.

gjaldeyrismál.

785. mál
[22:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég sá á vefmiðlum að það var svona talsverð eftirvænting ríkjandi fyrir þessum sunnudagsfundi og sumir vefmiðlar boðuðu beina útsendingu frá fundinum. Ég býst við að þær fjölskyldur sem ákváðu að poppa og hafa það kósí og horfa á þessa útsendingu hafi kannski orðið fyrir svolitlum vonbrigðum.

Hér er auðvitað ekki um neitt sérstaklega stórt mál að ræða eða merkilegt. Þetta er bara eitt af þeim málum sem hafa þurft að koma fyrir þingið með talsverðum hraði fyrir opnun markaða, eins og það kallast, til að stoppa upp í göt í lögum um gjaldeyrismál eða stoppa upp í göt í gjaldeyrishöftunum. Þessi lagasetning sem við þurfum stundum að ráðast í er auðvitað einn besti vitnisburðurinn um hversu afleitt það er að búa við þessi höft og þurfa að vera í þessari eilífu viðureign við stóra aðila með stórar fjárhæðir sem vilja koma þeim út úr landi þrátt fyrir höftin. Þetta bar brátt að en hér er sem sagt, kæru landsmenn og þið sem horfið á beinu útsendinguna, ekki verið að afnema höftin. Hér er í rauninni verið (Gripið fram í: Herða á þeim.) að herða á þeim, eins og hv. þingmaður kallar hér. Og það kann að hljóma þversagnarkennt, en það þarf sem sagt að stoppa upp í götin, herða þarf á höftunum áður en þau eru losuð, svo að þær aðgerðir um afnám hafta sem okkur verða væntanlega kynntar á morgun beri tilætlaðan árangur.

Við í Bjartri framtíð styðjum frumvarpið og stöndum að því, þó að alla jafna vilji maður fá lengri tíma til að setja sig inn í flókin mál og alla jafna vilji maður lesa eitthvað annað á sunnudögum en svona frumvarp sem er æði tyrfið. En við skiljum nauðsyn þessarar lagasetningar og skiljum flýtinn. En ég verð samt að segja í ljósi umræðunnar sem fór fram hér áðan, að það er auðvitað skrýtið að fundur sé á sunnudagskvöldi. Þetta er í fyrsta skipti sem þing er kallað saman á sunnudagskvöldi, og það á sjómannadaginn. Það er auðvitað út af því að ríkisstjórnin missti stjórn á atburðarásinni og það sáum við í leka í DV á föstudagsmorgun, og best að halda því til haga að það er áhyggjuefni. Ég vona að atburðarásin sem við sjáum um hin stóru frumvörp um afnám hafta verði betri. Og ég auglýsi jafnframt, eins og aðrir kollegar mínir hér í þinginu, eftir meira samráði í þeim efnum. En ræður um afnám hafta hyggst ég flytja síðar.