144. löggjafarþing — 121. fundur,  7. júní 2015.

gjaldeyrismál.

785. mál
[22:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það frumvarp sem liggur hérna fyrir þingi fengum við að sjá í efnahags- og viðskiptanefnd fyrst í dag, um fimmleytið, og höfum þar af leiðandi ekki haft mikinn tíma til að setja okkur inn í það. Við áttum þó góðan fund í nefndinni þar sem starfsfólk Seðlabankans sem vann að þessu frumvarpi með starfsfólki ráðuneytisins kynnti okkur það og við gátum fengið að spyrja þannig að ef við treystum dómgreind þessa starfsfólks hvað þetta varðar virðist þetta mjög ábyrg aðgerð. Það er í rauninni ekki verið að breyta neitt um eðli haftanna í sjálfu sér, þetta eru áfram fjármagnshöft. Það er ekki verið að færa þetta inn í gjaldeyrishöft, þ.e. ekki verið að færa þetta inn á það að takmarka gjaldeyrisviðskipti þegar kemur að sölu eða kaupum á vöru og þjónustu. Þetta eru áfram fjármagnshöft. Það eina í rauninni sem er verið að gera er að minnka undanþágur sem þrotabúin hafa haft sem hafa verið allt of miklar í gegnum tíðina, allt of miklar. Jafnræðisreglan hefur verið þeim í vil, þ.e. ef það á að vera jafnræði hafa þau fengið miklu meiri undanþágur en aðrir Íslendingar, lífeyrissjóðir o.s.frv., sem hafa líka þurft að búa við þessi höft. Það er bara verið að taka af þessar undanþágur og það er mikilvægt þó að það væri ekki nema bara til að gera það, þó að það væri ekki núna fram undan að við værum að fara að losa um fjármagnshöftin. En það er sér í lagi nauðsynlegt að gera það einmitt þegar við erum að fara að losa.

Það hefur komið fram í máli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gegnum tíðina að þegar menn losa um fjármagnshöft sé mjög mikilvægt að það ferli allt saman geti flotið, þ.e. að það séu ekki göt, ekki lekar, að skipið leki ekki þegar við erum að fara af stað í þá háskaför sem losun hafta er. Það er ábyrgt ef þetta er gert eins og lagt er af stað með, og minn skilningur á því er þótt hann sé ekki djúpur, og eins og kom fram í máli Seðlabankans og ráðuneytisins.

Áhrifin sem leki eða hvað við tökum mikið út úr hagkerfinu, að kaupa gjaldeyri fyrir krónur, getur haft á þetta ferli sem við erum að fara í við losun hafta hljóða upp á 80–140 milljarða. Ef ekki er stoppað í þessi göt geta slitabúin tekið út 80–140 milljarða. Bara svo við skiljum samhengi þessara talna hefur þúsund sinnum lægri upphæð áhrif á gengissveiflur. Það væri mjög óábyrgt að bregðast ekki við, jafnvel þó að það séu ekki endilega miklar líkur á því að þetta sé notað eru áhrifin slík að það væri mjög óábyrgt að reyna ekki að stoppa í þau göt áður en við förum af stað í þessa ferð.

Aukaverkanir á aðra aðila eru óveruleg. Í frumvarpinu sem menn geta lesið sést að þau eru óveruleg. Þótt þessar undanþágur séu ekki sjálfgefnar lengur er verið að tryggja að þetta hafi ekki nein veruleg áhrif á þá sem eru bara í venjulegum rekstri, jafnvel þótt þrotabúin ætluðu ekki að nýta sér þessar glufur, þetta er bara ef menn ætla að fara að nýta sér glufurnar.

Ég tel málið ábyrgt. Þetta er nauðsynlegt inn í þá framtíð sem við stefnum inn í. Ég get hreinlega samt sem áður ekki kafað það djúpt í málið til að meta það og jafnvel þótt ég hefði tíma er ég ekki viss um að ég hefði sérþekkingu á því þannig að ég sjálfur mun ekki greiða atkvæði með því en ég tala fyrir þessu sem ábyrgri aðgerð. Ef vel er gert eiga þeir sem sömdu þetta frumvarp og þeir sem leggja það fram heiður skilinn.