144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

tillögur um afnám gjaldeyrishafta.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja varðandi þessi mál og þau tvö frumvörp sem verða lögð fram á þinginu hér í dag að ég þakka fyrir það að mér heyrist vera ágætis samstaða um að reyna að mynda sem bestan grundvöll á þinginu fyrir framgang þeirra mála á þessu þingi.

Varðandi aðgerðir á fyrri stigum þessa máls er hér vísað til aðgerða sem gripið var til á árinu 2012 og má til sanns vegar færa að sú ákvörðun skiptir máli fyrir heildarsamhengi hlutanna. Á þeim tíma var okkar helsta gagnrýni sú að menn hefðu ekki heildaryfirsýn yfir umfang vandans og það var helsta verkefni okkar í nýrri ríkisstjórn frá árinu 2013 að skilgreina umfang vandans. Það lá í raun og veru ekki almennilega fyrir hvert umfang vandans var fyrr en eftir þó nokkuð mikla vinnu sérfræðinga og í samstarfi við Seðlabankann að hægt væri að kasta upp svona áætlun um greiðslujafnaðarvanda Íslands fram á við litið. Að því beindist gagnrýni okkar á sínum tíma á aðgerðum ársins 2012, að þegar menn koma, á þeim tíma, og vilja herða höftin þá spurðum við einfaldlega þáverandi ríkisstjórn: Hver er vandinn sem er verið að reyna að leysa? Eða hafa menn ekki hugmynd um það?

Því miður held ég að við höfum allt frá árinu 2008 vanmetið umfang vandans og það sem meira er, ekki gert okkur grein fyrir því að hann fór vaxandi. Eftir því sem til dæmis innlendu fjármálafyrirtækin í eigu erlendu kröfuhafanna skiluðu meiri og meiri hagnaði yfir tíma þá er krónufjallið bara að stækka, sem er hluti þess vanda sem við erum að takast á við í dag.

Þetta er svona mín sýn á það hvaða áhrif aðgerðirnar frá 2012 hafa haft og hvað hefur þurft að gera á þessu kjörtímabili. Það er fyrst að skilja grunnvandamálið, hvert umfang þess er og þá er hægt (Forseti hringir.) að koma með lausnir til að takast á við það.