144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

tillögur um afnám gjaldeyrishafta.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra um að það hefur tekið langan tíma að greina til fulls þennan vanda og stærsta skrefið í því var stigið í kjölfar breytingar á lögum árið 2012 þegar þessar erlendu eignir voru felldar undir höftin því að þá loksins fóru menn að horfa á þá sérstöku hættu sem þetta útflæði gæti skapað, sem fram að því hafði ekki verið hluti af útreikningum Seðlabankans.

Ég vil segja það að við í Samfylkingunni, og ég held við öll í stjórnarandstöðunni, viljum gjarnan vinna með ríkisstjórninni að góðri útfærslu þeirra tillagna sem hér hafa verið lagðar fram með þjóðarhag að leiðarljósi, eins og við höfum ávallt reynt að gera þegar haftamálin hafa verið uppi. Ég held að það hafi ekki verið okkur til góðs að við bárum ekki gæfu til að standa saman í mars árið 2012 og ég held að það skipti miklu máli að við reynum að gera það nú. Ég vænti þess að ríkisstjórnin taki í þá útréttu sáttarhönd stjórnarandstöðunnar sem felst í því að við séum tilbúin að vinna að þessu þjóðarhagsmunamáli af fullum heilindum í samvinnu við ríkisstjórnina. (Forseti hringir.) Hún þarf líka að leggja eitthvað af mörkum.