144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

tillögur um afnám gjaldeyrishafta.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Af þessu tilefni ætla ég að nefna mikilvægi þess að það komi skýr tónn héðan frá þinginu um að við séum með aðgerðaáætlun sem breið samstaða er um og að það skili sér út í samfélagið, að við séum hér með áætlun sem menn styðja og við hyggjumst fylgja. Ég tek eftir því að á fyrstu klukkustundunum eftir að málin eru kynnt koma sumir og velta fyrir sér hvort það kunni að vera veikleikar og hvað ef einhver ætlar að láta reyna á lagalegar hliðar málsins o.s.frv. Að þessu öllu saman hefur verið hugað og ef menn gefa sér tíma að sýna því þolinmæði að farið verði yfir þetta allt í nefndastörfum á þinginu og í umræðum hér, þá muni menn sjá að lögð hefur verið fram heildstæð áætlun sem tekur á öllum helstu þáttum málsins. Það er ekki hægt að eyða allri óvissu um alla framtíð um allt, en það er búið að koma til móts við allt það helsta sem ástæða er að horfa til.