144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

nýting tekna af stöðugleikaskatti.

[15:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er áfram um aðgerðir um losun hafta. Ég vil byrja á að fagna þessum frumvörpum. Mér finnst þau góð og líta vel út, a.m.k. við fyrstu sýn, og vera mjög í samræmi við þær áherslur sem við í Bjartri framtíð höfum lagt í þessu máli. Mér sýnist hafa tekist að koma þessum málum í ábyrgan farveg og ábyrga umgjörð þótt það hafi kannski kostað einhver átök bak við tjöldin miðað við það hvernig menn hafa oft talað um þessi mál. Ég er ánægður með að alls konar leiðir sem ég hef alltaf talið óraunhæfar, eins og gjaldþrotaleið, séu út af borðinu. Ég held að það hafi verið orðið nokkuð ljóst fyrir svolitlu síðan. Það er gott að við erum komin með tvö frumvörp þar sem annars vegar er þessi skattur og hins vegar frumvarp sem skilgreinir hvernig nauðasamningar eiga að fara fram. Við í Bjartri framtíð höfum allt lagt áherslu á að þessi nauðasamingaleið væri opin. Hún er að öllum líkindum farsælasta niðurstaðan fyrir þetta mál allt saman og síðan virkar stöðugleikaskatturinn sem hvati í þá átt að skynsamlegir samningar náist sem uppfylla rétt skilyrði.

Þetta segi ég allt saman með þeim fyrirvara að það á eftir að skoða málið í efnahags- og viðskiptanefnd og þar verður að fá ítarlega umfjöllun þar sem öll sjónarmið koma fram. Á þessum tímapunkti finnst mér mjög mikilvægt líka að fjalla um að hér þarf að hafa taumhald á væntingum. Þetta lítur út eins og einir 600 milljarðar komi mögulega inn á reikning í Seðlabankanum og það þarf engan snilling til að sjá að það getur myndast gríðarlegur freistnivandi, að menn freistist til að líta á þennan pening sem einhvern kosningasjóð eða eitthvað slíkt. Við þurfum að hafa í huga að þetta eru sömu peningarnir og fóru hér í umferð 2005 og upp úr og settu allt á hliðina og það er mjög mikilvægt að þeir geri það ekki aftur. (Forseti hringir.) Ég sé fyrir mér að þeir verði notaðir til að greiða niður opinberar skuldir en ekkert annað. Mig langar að vita hvort hæstv. fjármálaráðherra er ekki á sömu blaðsíðunni með það.