144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

aðhald í efnahagsaðgerðum.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Jú, það er grundvallaratriði. Í fyrsta lagi eru þær aðgerðir sem við erum að grípa til ekki tekjuöflunaraðgerðir, en það er ljóst að stöðugleikaskattur getur skilað miklu framlagi til ríkisins. Annað grundvallaratriði er að þessum fjármunum á að ráðstafa til uppgreiðslu skulda og þannig á að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs sem er of mikil. Hún er það vegna þess að við erum með of miklar skuldir en ekki síður vegna þess að vextirnir eru of háir. Ég þreytist ekki á að minna á mikilvægi þess að við sammælumst um aðgerðir sem geta rennt stoðum undir frekari efnahagslegan stöðugleika, jafnvægi í gengismálum og þar með lækkandi vexti á almenning og ríkið. Allt það sem er nefnt í þessari umræðu skiptir máli fyrir þessa hluti.

Ef aukið svigrúm í ríkisfjármálum getur hins vegar í framtíðinni orðið til þess að við getum gert meira í vegamálum, menntamálum, heilbrigðismálum, velferðarmálum og öðrum mikilvægum málaflokkum er það út af fyrir sig ekkert nema fagnaðarefni. Ég er sannfærður um að allir eru sammála um þetta. Aðalatriðið er að þau útgjöld sem þá á að ráðast í verði í samræmi við ábyrga ríkisfjármálastefnu og að möguleg aukin útgjöld á einstökum sviðum eigi sér ekki stað á sama tíma og það er ekki svigrúm fyrir þau í hagkerfinu vegna þess að umfang í einkageiranum sé of mikið eða við höfum öðrum verkefnum að sinna í það og það skiptið.

Sú umræða sem við hv. þingmaður eigum hér sem og hefur orðið í öðrum fyrirspurnum hér í dag snýst öðrum þræði um opinberu fjármálin, lögin um opinberu fjármálin, þau markmið sem við ætlum að setja okkur þar um hvernig við horfum til lengri tíma og gætum þess að útgjöld ríkissjóðs vaxi ekki um of. Þótt við höfum svigrúm til þess í sjóðum eða bættri afkomu ríkissjóðs þarf stundum (Forseti hringir.) einfaldlega að safna upp afgangi og gæta aðhalds, jafnvel þótt vel ári hjá ríkissjóði. Það er kannski einn lærdómurinn sem við eigum að draga af því sem gerðist í aðdraganda hrunsins. Þó að það væri verulegur afgangur af ríkissjóði var hann ekki nægur miðað við ástandið.