144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

aðhald í efnahagsaðgerðum.

[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er grundvallaratriði varðandi lögmætið að hér eru kynntar til sögunnar aðgerðir sem er beint að greiðslujafnaðarvandanum og þessi tekjuauki ríkissjóðs og möguleikar hans til að lækka skuldir eru eins konar hliðarafurð af því. Þetta er grundvallaratriði og skiptir máli gagnvart lögmæti skattsins. Það er ekkert launungarmál.

Varðandi skuldastöðuna að öðru leyti er ágætt að nefna í þessari umræðu að við Íslendingar eigum að stefna að því að vera með lægri skuldahlutföll en almennt tíðkast annars staðar. Nú er verið að vinna á þeim nótum við meðferð þingsins á frumvarpi um opinber fjármál. Við eigum í mínum huga að stefna að töluvert lægri skuldahlutföllum en aðrir. Það eru enn ein rökin fyrir því að nota þetta svigrúm til að lækka skuldir. Við erum með tiltölulega sveiflukennt hagkerfi, erum háð duttlungum náttúrunnar og sveiflum á viðskiptamörkuðum okkar og þurfum að geta brugðist við. Við eigum líka að draga þann lærdóm af því sem hér gerðist. Við erum þó komin þetta langt í að endurreisa efnahag landsins, fyrst og fremst (Forseti hringir.) vegna þess hve lág skuldahlutföll landsins voru þegar kreppan skall á.