144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

frumvarp um húsnæðisbætur.

[15:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta stutta, hnitmiðaða og gleðilega svar. Ég hlakka til að líta augum þetta frumvarp.

Það er annað sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra. Hún sagði nefnilega í óundirbúnum fyrirspurnum í síðustu viku að það væri hennar hlutverk að beita sér fyrir því að lífeyrisþegar hefðu það betra. Það er nokkuð sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum bent á, að við teljum ekki nóg að gert með 2% kaupmáttarhækkun til þeirra. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að batnandi hagur ríkissjóðs ætti að skila sér í batnandi hag almennings. Ég tel að lífeyrisþegar séu hluti af þessum almenningi og vil því spyrja hæstv. ráðherra: Eru einhverjar nýjar fréttir af því hvernig meðhöndla eigi bótafjárhæðir í almannatryggingakerfinu miðað við það hvernig kjarasamningar hafa verið að þróast?