144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

frumvarp um húsnæðisbætur.

[15:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Við munum vinna að því í sumar varðandi útfærsluna á því sem snýr að almannatryggingum og 69. gr. í lögum um almannatryggingar þar sem áhersla er lögð á að almannatryggingar eiga að fylgja verðlagi eða launaþróun í samfélaginu þannig að það á eftir að fara í gegnum það. Ég hef líka bent á og svarað því nokkrum sinnum hér að það er vinna í gangi varðandi heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Að hluta til fer hún fram núna í velferðarnefnd þar sem verið er að fara í gegnum formreglur. Við náum vonandi að klára þann áfanga núna í vor. Síðan geri ég ráð fyrir að koma á næsta þingi með breytingar sem snúa að bótaflokkunum. Þar munum við taka næstu skref í að bæta kjör lífeyrisþega eins og annarra landsmanna. Það er það sem þessi dagur endurspeglar, að við séum að taka stóra skrefið út úr hruninu og getum farið að horfa fram á við.