144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

kynning á frumvörpum um afnám gjaldeyrishafta.

[15:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Klukkan 11.30 í morgun var haldinn kynningarfundur fyrir þingmenn um þau frumvörp sem hingað eru á leiðinni um losun hafta. Tilkynning um þann fund barst þingmönnum klukkan 11.21. Ég veit að forseti lagði mikið á sig og hafði fyrir því að þessi kynningarfundur yrði haldinn og ég er ánægður með framtak hans í þessu. Það er hins vegar áhyggjuefni og svolítil vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa planlagt að halda svona kynningarfund og að það hafi ekki verið hluti af dagskránni á þessum degi að ræða við stjórnarandstöðuna. Það sem við erum að fást við byggir á samtali og menn þurfa að sjá stjórnmálalífið (Forseti hringir.) og samskipti minni hluta og meiri hluta sem hluta af samtali. Þess vegna vildi ég bara gera hérna grein fyrir því að þetta er hluti af því sem við þurfum að laga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)