144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

kynning á frumvörpum um afnám gjaldeyrishafta.

[15:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Staðan í gærkvöldi var þannig að það átti að kynna haftafrumvörpin fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna, þingflokkum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, en ekki þingflokkum stjórnarandstöðunnar. Það blasti við að við ættum bara að hlusta á blaðamannafundinn til að fá að vita hvað væri þarna í gangi sem var algjörlega óásættanlegt. Ég þakka forseta fyrir að hafa brugðist vel við þegar þingflokksformenn höfðu samband við hann og fóru yfir þessa stöðu. Forseti var sammála því að það væri ekki sæmandi framkoma við hv. þingmenn og þess vegna fengum við þessa stuttu kynningu milli 11.30 og 12 sem ég þakka fyrir. Augljóslega er upplagið samt algjörlega óásættanlegt og ekki sæmandi (Forseti hringir.) þessu stóra og mikla máli eða virðingu þingsins.