144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

kynning á frumvörpum um afnám gjaldeyrishafta.

[15:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég verð að taka undir það sem fyrri hv. ræðumenn hafa sagt. Ég kem inn sem áhorfandi að nokkru leyti á þessu kjörtímabili og mig furða þau vinnubrögð sem hér eru höfð og birtust í raun og veru á fundinum í gær þar sem menn lögðu áherslu á samstöðuna og alvöru málsins. Það var fyrsti sunnudagsfundur í sögu lýðveldisins. Mér þótti heldur gungulegt, ef ég má taka mér það orð í munn, að stjórnarandstöðuþingmennirnir og ég meðtalinn skyldu láta sér sæma að taka svona mál á dagskrá án þess að fá neinar upplýsingar, án þess að neinar upplýsingar væru í boði um það sem við tæki. Það átti ekki við í gær að spilla eindrægninni með svona athugasemd en það er rétt að hún komi hér fram þótt seint sé.