144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:05]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef þetta er ekki lagt fram einvörðungu til að framfylgja formi veit ég ekki til hvers er unnið með tölur sem eru, eins og hv. þingmaður bendir á, mjög óljósar og vefengjanlegar. Það eru margir þættir eins og hv. þingmaður bendir á sem eiga enn eftir að koma í ljós. Hún nefnir húsnæðismálin, þar hefur verið talað mjög óljóst, það hefur verið talað um nokkra milljarða. Þetta er nákvæmnin í þeim málum og eins og ég segi er talað um 16 milljarða tekjuskattslækkun. Hvað þýðir það? Hvað þýðir afnám hafta? Ég tek undir það sem hv. þingmaður er að segja.

Þá er komið að þungamiðjunni í hennar vangaveltum. Þingmál sem koma fyrir Alþingi á náttúrlega að taka alvarlega. Við erum væntanlega að samþykkja mál og þar með þessa þingsályktunartillögu til að farið sé eftir henni. Ég set hins vegar fram ákveðnar efasemdir um að það sé gott að njörva sig um of niður í málinu. Til dæmis fannst mér mjög góð ábending frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni áðan um þróun kaupgjalds og tryggingabóta. Halda menn að við munum ekkert ræða það í haust? Ég er ansi hræddur um að við munum gera það. Það er ekki nákvæmlega inni í sjálfri þingsályktunartillögunni en það er í forsendunum og í rökstuðningnum sem þarna er settur fram.

Mín niðurstaða er sú að í ljósi þess að ég tel að það eigi að taka þingmál alvarlega ætti ríkisstjórnin að draga þetta til baka og láta málið einfaldlega liggja. Við erum væntanlega ekki að fara að samþykkja lög um opinber fjármál. Ég vona að enginn sé (Forseti hringir.) með þá grillu í hausnum. Þá eigum við að nota þetta bara sem viðmiðunarramma fyrir umræðu og það er ágætt og gagnlegt að taka umræðu um ríkisfjármálin en sem vegvísir er þetta gagnslaust.