144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé þetta plagg sem eins konar blöndu af áætlun og hótunum, þar á meðal hótunum í garð opinberra starfsmanna sem margir hverjir hafa verið í verkfalli í tvo mánuði. Er ekki komið á tíundu viku sem verkföllin hafa staðið? Mér finnst þeim sýnd óvirðing með því að setja málin fram með þessum hætti. Þarna eru samningsaðilar að reyna að ná niðurstöðu. Það leikur sér enginn að því að vera launalaus þetta langan tíma og leggja niður vinnu. Það hefur komið í ljós að fólkinu er raunverulega alvara, það sættir sig ekki við þau kjör sem því eru búin og þá verður að gera ráð fyrir því í áætlunum um fjármál ríkisins að niðurstaðan verði önnur en þessi. Ef við værum að tala langt inn í framtíðina eru vissulega kjarastærðirnar í fjárlögum yfirleitt bundnar verðlagsþróun og menn fara ekki út fyrir það en þetta er bara að gerast þessa dagana. Þá finnst manni óeðlilegt að setja svona plagg fram og ég deili einfaldlega áhyggjum hv. þingmanns af samþykkt þessa plaggs án þess að við tökum miklu betri umræðu um innihald þess. Ef hugmyndin er síðan sú að halda sig við þennan ramma er þetta grafalvarlegt mál.