144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni um allar hans megináherslur, ekki síst það ákall hans að við látum þetta þingmál og önnur ámóta verða tilefni til djúprar umræðu um þessi mál og samhengi hlutanna. Það er samhengi á milli þess að skera niður við Landspítalann eða heilbrigðiskerfið eða halda útgjöldum þar í heljargreiðum og lækkunar á tekjuskatti. Það eru 16 milljarðar þar, hann talaði um 20 milljarða sem við þyrftum eða vísaði í þá upphæð í heilbrigðiskerfið. Það er samhengi á milli þessara hluta.

Langar fólk til að greiða skatta inn í heilbrigðiskerfið til að fjármagna það? Já. Það er nefnilega það merkilega við skoðanakannanir sem gerðar hafa verið aftur og ítrekað að þegar fólk hefur verið spurt hvort það vilji fjármagna heilbrigðiskerfið í gegnum skatta, borga inn í kerfið meðan við erum frísk, aflögufær og vinnandi eða hvort við viljum bíða þangað til við erum orðin veik og borga aðgangseyri í notendagjöldum segja allir: Við viljum borga skatta.

Þetta er umræða sem þarf að ná betur inn í þingsalinn og við þurfum að ræða þetta samhengi hlutanna. Það dugar ekki að setja fram eins og stjórnarmeirihlutinn hefur gert frumvarp um ríkisfjármálin og áætlun um það með ítarlegri greinargerð og alls kyns óbeinum skuldbindingum og hlaupa síðan á brott og láta okkur um að ræða þetta nánast út í tómið. Það gengur ekki. (Forseti hringir.) Þetta þarf að vera lifandi og raunveruleg umræða þar sem hver hlustar á annan.