144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg rétt að þetta er nýtt, það er ekki mikil hefð fyrir því að leggja fram ríkisfjármálaáætlun á þessu formi. Það hlýtur þess vegna að eiga eftir að þróast og menn hljóta að eiga eftir að læra af reynslunni núna og sjá næst þegar þetta verður gert hvað hefði verið sniðugt að gera einhvern veginn öðruvísi. Það eru óvenjulegar aðstæður uppi, sér í lagi varðandi gjaldeyrishöftin, þær breytingar sem er verið að boða með þeim frumvörpum sem voru kynnt í morgun, ekki beinlínis hversdagsleg mál og sem við þurfum vonandi ekki að glíma við aftur í bráð. Í ljósi þess eins tel ég næga ástæðu til að hv. fjárlaganefnd taki málið aftur til sín og núna, þegar málin eru komin fram, að meta stöðuna aftur með hliðsjón af þeim.

Mér finnst kjarasamningarnir líka góð ástæða til að taka málið aftur inn í nefndina, en launakjör eru alltaf að breytast þannig að það er kannski ekki alveg jafn „abnormal“, ef ég leyfi mér að sletta, ekki eins óvenjulegt ástand hvað það varðar. En vegna þess að við getum séð fram á mjög miklar hækkanir, t.d. á lægstu kjörunum, er það líka alveg nógu sterkt efni og mikilvægt (Forseti hringir.) til að málið sé aftur tekið inn.