144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og ég kom inn á í ræðu minni hef ég áhyggjur af því hvað hæstv. ríkisstjórn er í rauninni metnaðarlaus, vil ég leyfa mér að segja, þegar kemur að því að styrkja innviðina. Ég hef satt að segja þar einna mestar áhyggjur af heilbrigðiskerfinu því að á sama tíma og heilbrigðiskerfið hefur verið undir alveg gríðarlega miklu álagi, til að mynda vegna þess að stórar kvennastéttir sem innan þess starfa og eru félagar í BHM hafa verið í verkfalli núna í níu vikur án þess að neitt hafi þokast í samningsátt, lesum við jafnframt um það í fjölmiðlum að verið sé að undirbúa einkarekna kjarna í heilbrigðisþjónustu. Mér hugnast það satt að segja mjög illa ef ríkið ætlar jafnvel að fara að skera niður, a.m.k. ekki auka, útgjöld til velferðarmála en á sama tíma séu einkaaðilar að sækja í sig veðrið og fara inn á þetta svið í auknum mæli. Það held ég að verði almenningi alls ekki til góðs og verði svo auðvitað bara til þess að veikja enn frekar það velferðarsamfélag sem hér hefur þó verið.