144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:40]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og held að við hv. þingmaður séum í grunninn sammála um mikilvægi þess að efla ríkissjóð og greiða niður skuldir og jafnframt um sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Tímasetningin þar skiptir höfuðmáli upp á söluhagnað og hvers virði hluturinn er og margir aðrir þættir sem koma þar að.

Í seinna andsvari langar mig að spyrja hv. þingmann út í stöðugleikann. Hv. þingmaður kom inn á útgjaldaþróunina og vöxt í útgjöldum í samræmi við vöxt í vergri landsframleiðslu, að það sé hlutfallslega minni útgjaldavöxtur á móti vexti í landsframleiðslunni. Hvað telur hv. þingmaður að skipti mestu máli þegar kemur að því að viðhalda stöðugleika? Er ekki einmitt mikilvægara með jákvæðan afkomubata að við forgangsröðum og leggjum áherslu á forgangsröðun í hvað peningarnir fara en að við látum endilega útgjöldin fylgja vexti landsframleiðslunnar?