144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þurfum við eitthvað að hugsa um það í hvað útgjöldin fara. Ég held að við þurfum alveg sérstaklega að skoða þessi mál með dálítið nýjum hætti á komandi árum vegna þess að við erum lýðfræðilega að breytast sem þjóð þar sem hlutfall aldraðra fer hækkandi. Það eitt og sér hlýtur að þýða að við getum ekki notað sömu formúlu og hefur verið notuð síðustu ár.

Þá tel ég ekki síður og jafnvel enn mikilvægara að hugsa um það hvernig við öflum fjár í ríkissjóð. Þá er ég að hugsa um þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur markað með því að létta álögum með því til að mynda að afsala sér tekjum vegna veiðigjalda og með því að (Forseti hringir.) fella niður skatta á hátekjufólk. Þá hlið þarf að skoða ekki síður.