144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við það sem hér kemur fram er boðaður töluverður niðurskurður. Þegar töluverður niðurskurður á sér stað hljóta menn að horfa í stærstu útgjaldaliðina og ég óttast að menn horfi þar til velferðarkerfisins og menntakerfisins. Það hefur beinlínis verið talað um að menn ætli að gera breytingar á menntakerfinu sem eigi að leiða til lægri kostnaðar í því. Því er ég ósammála og því höfum við jafnaðarmenn líka verið ósammála vegna þess að við teljum ekki að menn eigi að fara í það á þessum tímapunkti. Tölurnar um niðurskurð á milli áranna 2016 og 2017 segja okkur að við eigum að hafa af þessu verulegar áhyggjur.

Þessi ríkisstjórn hefur líka hefur farið í mjög mikla hækkun á komugjöldum í heilbrigðiskerfinu og maður auðvitað óttast að hún haldi því áfram. Fleira þarna bendir til þess. Ef við ætlum að skera mikið niður (Forseti hringir.) getur það ekki verið án þess að menn geri eitthvað við velferðarkerfið, því miður.