144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek mjög undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar einmitt vegna þess að það er mikilvægt að núna, í fyrsta skipti þegar þessi ríkisfjármálaáætlun er rædd, jafnvel þó að hún sé ekki jafn fullkomin og í jafn miklum smáatriðum og við mörg hefðum kosið, skiptir máli að við berum virðingu fyrir umræðunni og verkefninu. Þess vegna finnst mér að þeir sem bera ábyrgð á því að þetta sé lagt hérna fram og rætt eigi að sjá í hendi sér að það er best að nefndin kalli málið inn til sín og sérstaklega eftir þau miklu tíðindi sem urðu hér í morgun um það að hugsanlega geti, ef allt fer á besta veg, vextir lækkað. (Forseti hringir.) Þess vegna standast meginforsendur þessarar tillögu ekki.