144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er eðlilegt að þingmenn velti fyrir sér gildi þingsályktunartillögu sem er með þeim hætti sem hún er, sú sem við erum að ræða um hér. Ef hv. þingmenn fara að tillögu formanns fjárlaganefndar um að tillagan verði samþykkt óbreytt, hvaða gildi hefur það þegar þing er búið að samþykkja að fela ríkisstjórn og fjármála- og efnahagsráðherra að fara eftir þeim tölum og forsendum sem í þingsályktuninni stendur og við vitum að hún mun ekki standast? Það vantar bæði húsnæðisfrumvörpin sem eru kostnaðarsöm, skattbreytingarnar að mestu leyti þó að þær séu að einhverju leyti inni í áætluninni og síðan losun hafta. Þetta er áætlun til ársins 2019 og við þurfum greinilega að fá að vita hvaða gildi það hefur (Forseti hringir.) að samþykkja þingsályktunartillögu sem við vitum að gengur ekki eftir.