144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Já, ég held að í stað þess að ljúka umræðu um þessa tillögu, hvað þá að samþykkja hana, væri eðlilegt að fjárlaganefnd fengi það verkefni og færi í það verkefni sem ætti í raun og veru að vera hafið þar, að fara yfir áhrif á ríkisfjármálin vegna yfirlýsinga um kjarasamninga, svo ekki sé talað um áætlun um losun fjármagnshafta. Það er bara eðlilegt að í umræðunni um frumvörpin um losun fjármagnshafta sem eiga að stuðla að því höfum við gleggri mynd af áhrifum á ríkisfjármálin. Þessi þingsályktunartillaga er ekki neins virði því að það eru allar forsendur brostnar sem fram eru lagðar í henni. Við áætlunargerð á að miða við það að áætlunin eigi að standast. Það er ekki hægt að leggja upp með það að samþykkja ályktun sem allir vita að enginn fótur er fyrir lengur.