144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom hingað dálítið hörundsár yfir því að spurt hefði verið hvar forusta nefndarinnar væri. Ef hann hefði heyrt það sem ég sagði áðan hefði hann heyrt að ég var ekki að kalla eftir honum bara til að hafa hann í salnum eitthvað að dingla sér. Það var allt í lagi mín vegna að hann sæti inni í matsal og hlustaði á umræðuna þar. Ég var hins vegar að spyrja hann ákveðinna spurninga sem snúa að þessu máli og vildi gjarnan að hann svaraði þeim. Finnst honum í alvörunni eðlilegt að við höldum áfram með þetta mál án þess að það verði tekið inn í nefndina, það uppfært og skoðuð hin augljósu stóru göt sem í því eru og hafa bæst við frá því að málið var tekið út úr nefndinni? Eiga menn ekki að minnsta kosti að reyna að uppfæra málið? Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn getur aldrei fylgt henni. Það er ekki fræðilegur möguleiki. Þá veltir maður því fyrir sér til hvers við séum að þessu. Vilja hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem ég veit að vill vanda sig, og hv. þingmenn stjórnarliðsins standa (Forseti hringir.) svona að málum, að mál sé samþykkt þótt það sé algjörlega óveruleikatengt?