144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta mál var ekki sent til umsagnar í nefndinni, ég get ekki séð það. Það komu engar umsagnir og það er sagt nei hérna. Þetta var þrisvar sinnum rætt í nefndinni sjálfri og partur af því ferli var að ákveða að málið yrði tekið út á einum fundi. Það var tekið út á einum fundi og þá eru þrír eftir og í upphafi var aðeins rætt um þetta. Það var fundur þarna þar sem fagaðilar komu, fundur nr. tvö þar sem málið var rætt. Annars vegar kom Ríkisendurskoðun og hins vegar Hagstofan sem fóru yfir málið. Þetta var allt og sumt, þetta er allt sem var rætt, þetta var ekki sent fagaðilum o.s.frv. Eitt af því sem kemur fram er að það eru ákveðnir óvissuþættir, m.a. um útistandandi ríkisábyrgðir vegna Íbúðalánasjóðs. Nú eru Hagsmunasamtök heimilanna með risastórt mál sem verður klárað fyrir Hæstarétti einhvern tímann í haust, ekki um það hvort verðtryggingin sé lögleg heldur hvort útfærsla hennar sé lögleg. Ef hún er það ekki geta 300 milljarðar gossað úr Íbúðalánasjóði inn í ríkissjóð með 13 milljarða kr. „böffer“. Ef við ætlum að vera með ríkisfjármálaáætlun sem við ætlum að geta tekið mark á (Forseti hringir.) verðum við að fá álit þessara aðila á því hverjar líkurnar eru á að þetta muni standast. Þetta er bara sagt sem óvissa.