144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Dagskrárvaldið er hjá forseta Alþingis. Dagskráin er forsenda fyrir allri annarri fundarstjórn forseta. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að ræða dagskrána undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta.

Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með innlegg hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í þessa umræðu hér. Ég átti sannast að segja von á öðru en að hann kæmi hingað þegar við erum að tala um þetta mál með þessa tegund af einhverjum stráksskap eða ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta. Mér er mikil alvara þegar ég segi að mér finnst það vanvirðing við þetta dagskrárefni að ræða það þegar forsendur hafa breyst eins og raun ber vitni.