144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil geta þess áður en ég byrja að ég bauð hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að koma hér á undan mér í ræðu til að koma að sjónarmiðum varaformanns fjárlaganefndar, bara svo menn viti það, en hann þáði það ekki. Hann er á mælendaskrá en mun þá sennilega ekki komast að með ræðu sína fyrr en á morgun fyrst hann vildi ekki taka plássið mitt.

En það sem ég vil gera að umtalsefni núna í annarri ræðu minni, því að það má vera að þær verði fleiri, er stefnan í skattamálum sem farið er yfir á bls. 34 og 35 í ríkisfjármálaáætluninni og ef tími vinnst til vil ég tala aðeins um viðmið og forsendur útgjaldaáætlunar. Varðandi stefnuna í skattamálum er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að tollar á ýmsum vörum verði endurskoðir til lækkunar. Það stendur ekki meira þar en þó hefur komið fram að verið er að tala um fatnað og skó, sem er allt gott og blessað, en í fyrsta lagi er ekki útlistað í ríkisfjármálaáætluninni hvaða áhrif þetta muni hafa á tekjur ríkissjóðs. Ekki er heldur farið yfir það hvaða áhrif þetta hefur á stöðu gjaldmiðilsins ef þetta eykur innflutning á vörum og ekki er gerð tilraun til að meta áhrifin af lækkuninni.

Síðan er í öðru lagi sagt að tryggingagjald verði lækkað árlega næstu fjögur árin. Sú forsenda er strax úti, eins og svo margar aðrar sem eru fyrir þessari ríkisfjármálaáætlun vegna þess að með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga er hætt við að lækka tryggingagjaldið. Við síðustu fjárlög ákvað ríkisstjórnin, eins og forseti man, að ganga inn í samkomulag um jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða og taka hana af. Með yfirlýsingunni með kjarasamningum núna er sagt að stjórnvöld ætli að halda áfram að greiða jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða en í staðinn ætli þau ekki að lækka tryggingagjaldið. Sú forsenda er því dottin út úr ríkisfjármálaáætluninni. Mér hefði fundist skynsamlegra að lækka tryggingagjaldið, sem nýtist öllum fyrirtækjum í landinu og er gjald sem tekið er af hverju einasta starfi, og láta það ganga til starfsmannanna í formi launahækkunar frekar en bíða með lækkun á tryggingagjaldinu. Auðvitað var það fyrir séð að stjórnvöld þurftu að standa við samkomulagið um að greiða inn á jöfnunarbyrði lífeyrissjóða en þarna er eins og búið sé að býtta á þessu tvennu, sem kemur mér á óvart.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir endurskoðun á skattlagningu á ökutæki og eldsneyti leiði til fækkunar á undanþágum frá og með árinu 2016. Síðan er aðeins farið yfir það og sagt í lokin að það sé gert til að skapa jafnræði í skattlagningu, umhverfisvernd og einföldun skattkerfisins. Sennilega eru einhverjar tekjur á móti þar sem verið er að fækka undanþágum og ég velti fyrir mér hvort þarna sé verið að taka af ívilnanir sem fylgt hafa kaupum á umhverfisvænum bílum, ég veit það ekki, því er ekki svarað í ríkisfjármálaáætluninni. En þetta er auðvitað stefnumál sem skoða þarf vandlega og er ekki tínt til hvaða tekjur þetta muni gefa í ríkissjóð.

Síðan er talað um endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu til að styrkja það sem tekjuöflunartæki og er búist við því, segir í áætluninni, að endurskoðun þessara þátta hafi í för með sér breytingar á lögum og reglugerðum um virðisaukaskatt á næstu missirum. Þarna hlýtur maður að gera ráð fyrir að einhverjar tekjur fylgi því í ríkissjóð af því að það á að styrkja virðisaukaskattskerfið sem tekjuöflunrtæki, en þó er ekki farið yfir það hvernig það á að fara fram. Er verið að tala um eitt virðisaukaskattskerfi? Um hvaða breytingar er verið að tala? Það var ekki útlistað, en þarna má gera ráð fyrir einhverjum tekjum. Síðan er sagt í þessari áætlun, sem er eins ónákvæm í þessu tilliti eins og ég fer hér yfir, með leyfi forseta:

Að auki verður haldið áfram undirbúningi næstu skrefa í því ferli sem hófst á árinu 2014 til að einfalda og lækka tekjuskatt einstaklinga, með því að draga úr bilinu milli lægstu skattþrepanna með það að lokamarkmiði að fella þau saman í eitt þrep. Sú aðgerð er talin mikilvægur liður í því að einfalda skattkerfið, bæta skilvirkni þess og auka ráðstöfunartekjur fólks.

Þetta er auðvitað stefna ríkisstjórnarinnar sem sett er fram í ríkisfjármálaáætluninni en er jafnframt ein af aðgerðum stjórnvalda til að greiða fyrir kjarasamningum. Ég veit ekki hvernig samtalið fór fram en það virðist hafa verið samið um skattstefnu hægri stjórnarinnar með kjarasamningunum. Auðvitað leggst þessi breyting með ákveðnum hópi og sá hópur á það sannarlega skilið, en aðrir hópar eru skildir út undan þegar verið er að einfalda skattkerfið. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga stendur, með leyfi forseta:

„Beint tekjutap ríkissjóðs vegna framangreindra ákvarðana er áætlað u.þ.b. 9–11 milljarða kr. þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda.“

Þarna er reyndar aftur talað um tryggingagjaldið vegna þess að ekki er gert ráð fyrir að svigrúm verði til lækkunar tryggingagjalds líkt og verið hafði til skoðunar. Tryggingagjaldið er aftur nefnt þegar talað er um jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða í yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstjórn. Þarna er talað um að skattbreytingin kosti 9–11 milljarða kr. en í ríkisfjármálaáætluninni er sagt að samanlögð áhrif af því sem ég taldi upp séu 2 milljarðar á næsta ári og fari stigvaxandi upp í 6 milljarða á árinu 2019. Auðvitað er erfitt fyrir okkur að átta okkur á því hvað leggst með tekjum í ríkissjóði og hvað ekki. En það er alla vega munur á þessum tölum og sennilega er það vegna breytinga á virðisaukaskattskerfinu og ívilnunum varðandi ökutæki, annað er í plús og hitt er í mínus, þess vegna er sennilega munur á þessum tekjum. En ég er auðvitað að geta mér til um þetta því að það stendur ekki í ríkisfjármálaáætluninni.

Þessi ríkisfjármálaáætlun var lögð fram 1. apríl síðastliðinn með það skýra markmið að leiðarljósi að einfalda skattkerfið með því að fækka þrepum í þrepaskipta skattkerfinu. Ég geri ráð fyrir því að ríkisfjármálaáætlunin hafi farið í gegnum hæstv. ríkisstjórn og að þar hafi hún verið samþykkt áður en hún kom í þingið. Ég geri líka ráð fyrir að hún hafi verið samþykkt í báðum þingflokkum stjórnarflokkanna. Þess vegna var ég mjög hissa á svari hæstv. forsætisráðherra þegar hann var spurður út í einföldun á tekjuskattskerfinu í óundirbúnum fyrirspurnum þann 15. maí síðastliðinn, og hvort verið væri að semja um skattstefnu Sjálfstæðisflokksins við verkalýðsfélög. Þá sagði hann að það væri af og frá, það væri aldeilis ekki hlutverk þessarar ríkisstjórnar að einfalda skattkerfið, þvert á móti væri verið að skoða tillögur sem fælu í sér margföldun á þrepum. Ég trúði varla mínum eigin eyrum þegar hæstv. forsætisráðherra sagði þetta og velti fyrir mér hvort ekki hafi verið farið nákvæmlega í gegnum ríkisfjármálaáætlunina áður en hún var samþykkt í ríkisstjórn. En það má vera að hæstv. forsætisráðherra hafi bara verið búinn að gleyma því að í ríkisfjármálaáætluninni er einmitt talað um að einfalda skattkerfið með því að fækka þrepum.

Hér er líka farið yfir útgjaldaviðmið og forsendur. Ég hef tekið eftir því að svo virðist sem að minnsta kosti hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi ekki áttað sig á því að með því að samþykkja ríkisfjármálaáætlunina samþykki þeir í fyrsta lagi að munur verði á launaþróun og þróun þeirra sem þurfa að reiða sig á bætur, því að á bls. 35 í ríkisfjármálaáætluninni er talað um 2% kaupaukningu á ári hjá ríkisstarfsmönnum en aðeins 1% kaupmáttaraukningu hjá þeim sem þurfa að reiða sig á bætur. Það brýtur í bága við 69. gr. laga um almannatryggingar þar sem gert er ráð fyrir að bætur fylgi launaþróun.

Við vorum að ræða um gildi þessarar áætlunar undir í umræðu um fundarstjórn forseta hér áðan. Mér finnst það vera áleitin spurning ef hv. þingmenn eru búnir að samþykkja að brjóta önnur lög með þessari þingsályktunartillögu. Hvaða gildi hefur það? Mér finnst það alla vega til umhugsunar fyrir hv. þingmenn sem hyggjast fara að tillögu formanns fjárlaganefndar um að samþykkja þessa þingsályktun óbreytta þrátt fyrir þær forsendur sem þó eru í áætluninni og síðan þær breyttu forsendur sem upp eru komnar. Hér er ekki bara um að ræða að umfjöllun og mat á stóru haftafrumvörpunum vanti í ríkisfjármálaáætlunina heldur vantar þar líka húsnæðisfrumvörpin frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Það er beinlínis tekið fram að þau séu ekki í þessari áætlun, hugsanlega eru skattbreytingarnar þar að einhverju leyti og þar eru stórar upphæðir sem breyta ýmsu um niðurstöðurnar. Það er því sannarlega ástæða til að íhuga hvort þurfi ekki að taka málið í nefnd að nýju. Ég tel að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra muni skoða það mál á morgun, en í dag er hann auðvitað upptekinn við að útskýra haftalosunina, geri ég ráð fyrir.

Það er annað sem ég er ekki viss um að hv. þingmenn stjórnarflokkanna átti sig á, þ.e. að það stendur mjög skýrt á bls. 35, þar sem fjallað er um launastefnu áætlunarinnar, að ef kaupmáttur ríkisstarfsmanna fer fram úr 2% á ári verði skorið niður. Það eru skilaboð sem sett eru fram inn í kjaradeilur ríkisstarfsmanna þannig að þeir fá það bara svart á hvítu í ríkisfjármálaáætlun, sem til stendur að samþykkja óbreytta að tillögu formanns fjárlaganefndar, að nái þeir fram kjarabótum verði störfum fækkað. Það þýðir auðvitað niðurskurð í velferðarkerfinu því að stóru hóparnir eru hóparnir sem halda uppi heilbrigðisþjónustunni og ýmsum öðrum mikilvægum stoðum í velferðarkerfinu. Verið er að boða hér niðurskurð út af kjarasamningum, boðaður er 1% niðurskurður á ári hverju sem eru 5,5 milljarðar á ári hverju, og síðan vitum við náttúrlega ekki hvernig fer með bætur almannatrygginga því að auðvitað sætta menn sig ekki við að það dragi í sundur með hópum, það kostar nokkra milljarða til viðbótar og þá á eftir að gera ráð fyrir húsnæðisfrumvörpunum og skattbreytingunum. Auðvitað geta komið tekjur á móti, einkum ef okkur lánast að greiða niður skuldir ríkisins í stórum stíl, sem væri þá í formi lægri vaxta. Það eru auðvitað bara getgátur og við sjáum það ekki í ríkisfjármálaáætluninni hvernig það er hugsað þannig að þetta plagg er mikið gallað þó að í því séu sannarlega miklar upplýsingar líka. Eins og ég fór yfir áðan eru upplýsingar um skattstefnu hæstv. ríkisstjórnar skráðar í ríkisfjármálaáætlun og það er ágætt og gott að vega og meta þær upplýsingar. Þá geta aðrir stjórnmálaflokkar mátað þær við skattstefnu sína.