144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:23]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það má þessi tillaga eiga að þegar farnar eru hjáleiðir, sem að vísu þarf að fara, sér maður ákveðna pólitíska framtíðarsýn ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins út úr því. Ein af þeim er sú að laun hjá ríkinu hækki ekki meira en um 2%. Það er pólitísk framtíðarsýn sem hægt er að mæta með annarri pólitískri framtíðarsýn og er ekkert að því að það takist á. Það mætti vera skýrari rammi utan um það. Ég tel að þetta eigi ekki að vera framtíðin, ég tel að það sé sjálfstætt pólitísk markmið að hækka laun, að auka kaupmátt og fjárfesta í innviðum samfélagsins með því að til dæmis hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar hafi hærri laun og endist betur og geri okkur meira gagn.

Þetta er ekki nema mínúta þannig að það er rétt að láta þetta nægja að sinni en síðan er framhald síðar.