144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í tveggja mínútna ræðu sem ég hef til úthlutunar undir þessum dagskrárlið langar mig að fagna tveimur áföngum, annars vegar stóráfanga í afnámi gjaldeyrishafta í gær og hins vegar í raun og veru stóráfanga í afnámi fyrirvara varðandi framkvæmdir á Bakka við Húsavík.

Fyrst að gjaldeyrishöftunum. Mér sýnist að það hafi verið mjög vel og fagmannlega unnið að þessu verki af hendi Seðlabankans og seðlabankastjóra, starfshóp, ríkisstjórn og öllum þeim erlendu sérfræðingum sem hafa komið að. Þetta er sérstakt fagnaðarefni og rétt að hafa það í huga hvað hægt er að gera þegar menn standa saman og komast að. Grunnforsendan er auðvitað lagasetning frá því í mars 2012. Ég ætla ekki af stráksskap mínum að minna á þá atkvæðagreiðslu, hvernig hún var, en mikið og gott mál var þar unnið sem gerði það að verkum að við gátum farið þessa leið. Ég fagna því líka mjög að farin sé samningaleið í staðinn fyrir gjaldþrotaleið og þar á meðal komið í veg fyrir hugsanleg málaferli. Þetta mun hafa mikilvæg og jákvæð áhrif í för með sér, eins og lækkun vaxtagreiðslna sem skapar þá svigrúm fyrir ríkissjóð á komandi árum til að taka betur þátt í innviðastyrkingu á landinu.

Síðan að afléttingu fyrirvara um framkvæmdir við Húsavík. Þar eru að hefjast loksins, loksins miklar framkvæmdir upp á eina 40 milljarða kr. í uppbyggingu á verksmiðjunni, 400 störf munu skapast á byggingartímanum við verksmiðjuna og ein 300 störf við annað, svo sem eins og við samgönguframkvæmdir, hafnarframkvæmdir, orkuframkvæmdir og slíkt. Í verksmiðjunni munu skapast 120 framtíðarstörf plús afleidd störf sem fylgja með.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu alveg sérstaklega. Þingmenn Norðausturkjördæmis og stjórnvaldið í allt hefur talað um nauðsyn þess í langan tíma að byggja upp annars staðar en á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er að takast með þessari framkvæmd sem er að hefjast og ég fagna mjög. Nýtt uppbyggingarskeið er að hefjast á norðaustursvæði landsins.