144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rík ástæða til þess að gleðjast yfir stórtíðindum gærdagsins þegar fyrsta alvöruskrefið var tekið í afnámi hafta. Hafi orðalagið glæsileg niðurstaða einhvern tímann átt við þá held ég að hægt sé að segja að það hafi átt við í gær. Niðurstaðan sýnir að það var vandað til verka í þessu máli og niðurstaðan er öllum sem að komu til mikils sóma, bæði þeim sérfræðingum og nefndum sem skipaðar voru en ekki síst forustu ríkisstjórnarinnar.

Á sínum tíma þegar þessi niðurstaða var fyrst sett í orð í kosningabaráttunni 2013 var talað um glannaleg kosningaloforð og annað eftir því, en niðurstaða gærdagsins sýnir okkur hvað einbeittur vilji, einurð, kjarkur, staðfesta og skýr framtíðarsýn fá áorkað. Sama einurðin og sami kjarkurinn kom fram í baráttunni fyrir því að þjóðin undirgengist ekki klafa Icesave. Þetta er sama staðfestan og sami kjarkurinn og kom fram í því að menn þorðu að setja fram og fullkomna skuldaleiðréttinguna á sínum tíma. Þetta er ekki tilviljun. Þetta er angi af sama meiði og ber að fagna þessu alveg sérstaklega. Auðvitað gleðst maður innilega yfir því að kröfuhafar skuli hafa séð hvað til þeirra friðar heyrði og hafi ákveðið að ganga til samninga en láta ekki reyna á dómstólaleið. Ég held að þetta verði okkur öllum til farsældar og að dagurinn í gær, 8. júní 2015, verði lengi í minnum hafður.