144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku sagði hæstv. fjármálaráðherra í þinginu, með leyfi forseta:

„Fyrir mér er þetta fyrst og fremst til vitnis um að vinnumarkaðsmódelið sem við notum á Íslandi er gallað.“

Síðan sagði hann:

„… við þurfum að færast yfir í nýtt módel, meira í átt að norræna módelinu. Það verður verkefni næstu ára.“

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra þarf að skilja að það er djúpstæður ágreiningur í þjóðfélaginu. Nýju módeli verður ekki komið á sisona. Á árum áður þegar sjávarútvegurinn, undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, barðist í bökkum var vandræðum hans með taktföstu millibili varpað yfir á fólkið með gengisfellingum. Þegar atvinnuvegurinn er blessunarlega farinn að skila miklum arði þá rennur arðurinn að langmestum hluta til útgerðarinnar. Eigandi auðlindarinnar, þjóðin, er arðrænd svo að hlutirnir séu nefndir réttum nöfnum. Arðurinn af raforkunni rennur til stóriðjunnar í líki útsöluverðs til hennar. Ferðaþjónustan nýtur enn afsláttarkjara af virðisaukaskatti og gerir út náttúru Íslands án þess að borga nokkuð fyrir það. Þeir sem hæst hafa launin hækka þau við sig. Ríkisstjórnin lækkar veiðigjöld, afnemur auðlegðarskatt og hækkar matarskatt og telur nú brýnast að lækka eða afnema raforkuskatt á stórðjuna.

Þegar þetta óréttlæti hefur verið upprætt er kominn tími til að ræða norræna módelið. Forseti, ég hef sagt það áður og segi það enn að atvinnulífið og þá sérstaklega sá hluti þess sem skilar afgangi verður að taka þátt í samfélagskostnaðinum. Samfélagskostnaðurinn er meðal annars sá að borga opinberum starfsmönnum skikkanleg laun. Upprætum óréttlætið, skerum kökuna upp á nýtt og þá kemur norræna vinnumarkaðsmódelið meira og minna af sjálfu sér.