144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í síðustu viku vann blaðakonan Erla Hlynsdóttir mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þetta er í þriðja sinn sem Erla vinnur mál sem snertir mörk tjáningarfrelsis og meiðyrða fyrir Mannréttindadómstólnum og þess má geta að Björk Eiðsdóttir vann sambærilegt mál árið 2012.

Mig langar að vísa í grein í Kvennablaðinu, kvennabladid.is, eftir Evu Hauksdóttur, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þetta nýjasta mál Erlu er 16. málið gegn íslenska ríkinu sem Mannréttindadómstóll Evrópu tekur til meðferðar og það 13. sem íslenska ríkið tapar.“

Forseti. Þá veltir maður fyrir sér: Er möguleiki að það sé eitthvað að lögunum okkar eða er möguleiki að það sé eitthvað að dómstólunum okkar þegar kemur að tjáningarfrelsinu? Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig hvert málið á fætur öðru er lýtur að tjáningarfrelsi hefur verið hrakið aftur heim í hérað. Mér finnst brýnt að við þingmenn áttum okkur á því hversu mikilvægt það er að standa vörð um og standa með tjáningarfrelsinu.

Einnig kemur fram í þessari grein eftir Evu Hauksdóttur, með leyfi forseta:

„Það vekur athygli að í þeim málum sem Hæstiréttur hefur að mati Mannréttindadómstóls Evrópu brotið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (sem varðar tjáningarfrelsið) hafa sömu dómarar hvað eftir annað komist að rangri niðurstöðu.“

Það er eftirtektarvert, forseti, að í viðtali á Rás 1 sagði Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Erlu, að innanríkisráðuneytið hefði hafnað beiðni um fjárhagslega aðstoð svo að hún gæti sótt málið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Svarið var að það væru engir peningar til. Á sama tíma fer þáverandi aðstoðarmaður ráðherra fram á að blaðamenn sæti fangelsisdómi, séu sem sagt kærðir og þurfi að sitja í fangelsi fyrir tjáningarfrelsið. (Forseti hringir.) Þetta finnst mér alvarlegt og mér finnst að þingið eigi að huga miklu betur að þessum málaflokki.