144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að það var mikið fagnaðarefni í gær með þeim fréttum sem þá gegnsýrðu samfélagið og mér finnst afar mikilvægt að sá andi svífur yfir vötnum að um þetta ríki þverpólitísk sátt. Við settum höftin á saman á sínum tíma og við eigum að losa þau saman. Pólitískar átakalínur eiga ekki við í máli sem þessu. Þess vegna vil ég fagna því sérstaklega að það kom fram í orðum forsætisráðherra í Fréttablaðinu í dag að hann teldi að þetta væri dæmi um stórt mál sem yrði til þess að losa um stíflur í störfum Alþingis. Ég tek undir það og ég vænti þess auðvitað að það þýði að forsætisráðherra og forusta ríkisstjórnarinnar sé þeirrar skoðunar og deili þeirri skoðun með okkur í stjórnarandstöðunni að þar sem tíminn er liðinn og starfsáætlunin er úr gildi fallin þurfi að setja ófriðar- og átakamál til hliðar og einhenda okkur í það sem sátt er um.

Á mánudaginn í síðustu viku lagði ríkisstjórnin fram og forusta ríkisstjórnarinnar fram lista með 74 málum undir yfirskriftinni Forgangsmál. Þessi sami listi var á borðum á fimmtudaginn var og við höfum engan nýjan lista séð, þessum 74 málum hefur ekki fækkað. Ef þau eiga öll að vera á borðinu þá verðum við með fullri sanngirni enn þá að störfum hér eftir verslunarmannahelgi. Þannig að ég vænti þess að orð hæstv. forsætisráðherra þýði að við deilum þeim skilningi að á fundi forustumanna flokkanna í dag leggi ríkisstjórnin fram raunhæfa áætlun um lok þingsins þar sem sanngirni er sýnd og þar sem menn átta sig á því hvað skiptir máli að ljúka og að nú er ekki tími til þess að leggja allan þungann á átakamál.