144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er vissulega ástæða til að óska ríkisstjórninni til hamingju með þann árangur og þann áfanga sem náðist í gær. Ég geri það af fyllstu einlægni. Ég er mjög ánægður að hér hefur orðið fyrir valinu ábyrg leið og ég tel á engan hallað þó að maður taki tiltaki það sérstaklega að hæstv. fjármálaráðherra á heiður skilinn fyrir framgöngu sína í þessu máli, og Seðlabankinn að sjálfsögðu líka. Allir vita að það hafa verið margir endarnir sem þurft hefur að binda niður í þessum efnum og sumir þeirra býsna nærri ríkisstjórninni og jafnvel innan hennar.

Það er hins vegar ekki laust við að maður verði var við að nú fari fram heildstæð tilraun til þess að endurskrifa söguna, þá sérstaklega af framsóknarmönnum sem um þetta mál hafa fjallað á opinberum vettvangi. Það er nefnilega ekki þannig að hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi verið sá eini sem talaði um svigrúmið í síðustu kosningum. Það gerðu allir. Allir vissu að það var til staðar. Það voru hins vegar miklar efasemdir um að hægt væri að nýta það til að greiða niður skuldir almennings. Það er auðvitað það sem menn sögðu að væri glannalegt og glannaleg áætlun. Ítrekað hefur hæstv. forsætisráðherra verið spurður hér í þessum sal, meðal annars af formanni Bjartrar framtíðar, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni: Á ekki að semja við kröfuhafa? Ætla menn ekki að gera það? Svörin við því frá hæstv. forsætisráðherra hafa verið á þá leið að það jaðraði við landráð. Þegar hann var spurður að því hvort hann ætlaði að nýta svigrúmið eða fjármagnið sem næðist í til að byggja sjúkrahús var fyrirspyrjandinn aftur, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, sakaður um að vera í vinnu fyrir kröfuhafana. Það er því nauðsynlegt að allri þessari sögu sé haldið til haga á sama tíma og maður fagnar því að ábyrg niðurstaða hefur orðið fyrir valinu.

Það er okkur líka umhugsunarefni um gjaldmiðilinn að þessi niðurstaða felur í sér að kröfuhafar gefa eftir 40% (Forseti hringir.) af eign sinni án málaferla. Hvað segir það okkur um blessaða krónuna?